Jón Sæmundur - Lifandi tilraun í Góða hirðinum.
Á þessari sýningu er rými Góða hirðisins virkjað sem lifandi vinnustofa þar sem ferlið sjálft er bæði viðfang og miðill. Listamaðurinn vinnur á staðnum í eina viku, safnar myndefni og hlutum frá Góða Hirðinum, skissar og umbreytir í verk sem verða til í rauntíma. Með því að tengja myndavél við skjá í rýminu og beina útsendingu netinu er vinnan gerð sýnileg sem opin athöfn fremur en lokað framleiðsluferli. Áhorfandinn verður vitni að ákvarðanatöku, tilviljunum og efnislegum viðbrögðum sem venjulega eru falin bakvið fullmótað verk.
Verkefnið verður frá 2. - 8. febrúar á opnunartíma verslunar.
Um listamanninn
Jón Sæmundur Auðarsson er þekktur íslenskur myndlistarmaður, hönnuður og tónlistarmaður sem hefur starfað í yfir tvo áratugi. Hann er hvað þekktastur fyrir merkið „Dead“, sem varð táknmynd íslenskrar menningar á 2000-áratugnum og hefur birst á sýningum, innsetningum og fatnaði bæði hér heima og erlendis. Verk hans fjalla gjarnan um líf, dauða, trú, hringrás tíma og endurkomu.